top of page

Húsnæðis- og aðstöðumál

Hátt í þúsund manns eru á biðlista eftir stúdentaíbúðum á hverju ári og fjöldi stúdenta á erfitt með að koma þaki yfir höfuðið. Vaka telur það óásættanlegt og vill að byggðar verði fleiri stúdentaíbúðir á háskólasvæðinu sem allra fyrst. Við krefjumst þess að Háskóli Íslands standi við undirritaðan samning um byggingu stúdentaíbúða á reitnum fyrir framan Gamla Garð án tafar og að fleiri byggingarreitir á háskólasvæðinu verði afmarkaðir fyrir stúdentaíbúðir.

Aðgengi í byggingum háskólans

Vaka krefst þess að háskólinn sé með aðgengi fyrir öll en í mörgum byggingum háskólans er aðgengi ekki til staðar. Ef háskólinn vill uppfylla grunngildi sín, svo sem jafnrétti, verður að vera aðgengi fyrir öll í öllum byggingum skólans.

Nemendur hafi aðgang að skólastofum

Vaka berst fyrir því að nemendur hafi frjálsan aðgang að lausum skólastofum gegn skráningu. Fyrirmynd af þessu tagi er að finna í öðrum háskólum landsins og berst Vaka fyrir auknu aðgengi nemenda Háskóla Íslands að þeirri aðstöðu skólans sem þegar er til staðar.

Salur sem nemendafélög hafa aðgang að

Vaka vill tryggja jafnrétti á milli nemendafélaga. Tíðkast hefur að einstaka félög fái sali frá Háskóla Íslands endurgjaldslaust til leigu fyrir viðburði. Vaka berst fyrir því að öll nemendafélög hafi sama aðgang að þeim sölum því stór hluti útgjalda nemendafélaga er oft leiga sala. Mikilvægt er að tryggja einnig að öll nemendafélög innan háskólans hafi aðgang að skrifstofu eða geymsluplássi vegna starfa sinna.

Minnka ferðalög á milli bygginga

Nemendur þurfa oft að fara á milli bygginga í tíu mínútna hléum. Það er nemendum til trafala og oft ógerlegt að mæta á réttum tíma. Vaka vill að nemendur í beinum námsleiðum séu aðeins í einni byggingu á dag. Mikið ferðalag milli bygginga getur einnig verið hamlandi fyrir suma nemendur og þá sérstaklega ef það er ferðalag milli bygginga sem krefst þess að ferðast langt í slæmu veðri og vindum.

Hópavinnuaðstaða

Vaka leggur áherslu á að auðveldara sé fyrir nemendur að bóka stofur fyrir hópavinnu og lærdóm. Möguleiki ætti að vera á að bóka stofur með einföldum hætti á Uglu.

Skápa í allar byggingar

Vaka vill fjölga skápum í byggingum háskólans en nemendur ættu að hafa aðgang að skáp í öllum byggingum. Vaka krefst þess að skápapláss sé innifalið með stúdentakortunum og hægt sé að opna skápana með kortinu. 

Lágvöruverslun á háskólasvæðið

Vaka vill halda áfram að berjast fyrir því að fá lágvöruverslun á háskólasvæðið. Það er ólíðandi að háskólanemum sé gert að versla nauðsynjavörur á kjörbúðarverði og viljum við greiða aðgengi háskólanema að lágvöruverslun.

Heilsueflandi háskóli

Vaka vill halda áfram að berjast fyrir líkamsræktaraðstöðu með fullu aðgengi á háskólasvæðið. Vaka fagnar komu World Class í Vatnsmýrina en við munum halda áfram að berjast fyrir betri kjörum stúdenta til líkamsræktar. Einnig munum við berjast fyrir bættum kjörum stúdenta hjá sundlaugum höfuðborgarsvæðisins.

Aðgangskort í byggingar háskólans

Að frumkvæði Vöku var aðgangskortum að byggingum háskólans komið á laggirnar en fjöldi stúdenta nýta þau daglega. Vökuliðar forrituðu kortin í þeirri mynd sem þau eru í dag.

bottom of page